Legsteinn

smásaga

Svanhildur Pétursdóttir
f. 8.3.1937
d. 5.10.1964

María Baldursdóttir
f. 4.10.1964
d. 4.10.1964

Ég stíg út úr bílnum og geng inn fyrir hliðið, læðist á milli leiðanna. Ég kann þessa leið utan að, gæti sennilegast lokað augunum og samt endað á réttum stað. Loftið í dag er kalt enda veturinn á næsta leyti, að öðru leyti er veðrið gott. Ég er því feginn.

Venjulega tek ég konu mína með mér, stundum synina tvo líka, en í dag bað ég um að fá að fara einn. Konan mín sagði, ekkert mál elskan. Hún brosti, kyssti mig á kinn og sagði, hringdu í mig þegar þú ert búinn.

Ég nem staðar fyrir framan leiðið þeirra. Rigning gærdagsins hefur myndað örlitla frosthúð á blágrýtinu, en nöfnin eru enn sýnileg. Svanhildur og María. Móðir og dóttir. Eiginkona og barn.

Legsteinar eru skrýtið fyrirbæri. Þeir innihalda í raun allar upplýsingar. Fædd. Dáin. Nafn og dagsetningar.

Það sem legsteinninn segir ekki er hvernig hún Svana mín var vön að fara úr inniskónum áður en hún stóð upp úr sófanum í stofunni á kvöldin. Það var auðveldast að klæða sig í þá þar. Hún gekk frekar yfir kalt gólfið, berfætt til rekkju, en að þurfa að beygja sig eftir skónum í hjónaherberginu. Svana var vanaföst kona sem eldaði bestu kjötsúpu sem ég hef bragðað, uppskrift sem hafði lærst frá móður til móður, og dó með henni.

Legsteinninn segir heldur ekki frá því hvernig Svana barðist tímunum saman við að koma dóttur okkar í heiminn. Blágrýtið er ekkert líkt daufgræna litnum í augum hennar þegar læknirinn sagði okkur að hann hefði reynt allt sem hann gat en barnið hefði bara aldrei átt séns.

Ég ríf í burtu nokkra arfa og skipti um kerti í útiluktinni. Dreg eldspýtnakassann upp úr jakkavasanum og kveiki í. Kerti sem logar um stund, um það bil jafn lengi og Svana barðist við dauðans dyr. Ljósið tapar þó alltaf að lokum. Nokkrar klukkustundir skildu að, móður og dóttur. Hamingju og sorg, fjölskyldu og einveru, framtíð og fortíð.

Kertið logar glatt og ég signa leiðið, mynda kross sem verndar oss frá öllu illu. Kertið, leiðið, grafsteinninn. Nöfn og dagsetningar höggnar í stein. Allt þetta, minnisvarði um kvalir, brostnar vonir, harmleik. Minnisvarði um dauða.

Ég feta leiðina til baka hægum skrefum og sest inn í bílinn. Hann er heitur en frostið eltir mig inn um dyrnar. Ég finn hrollinn þegar ég sest í sætið og loka á eftir mér.

Ég lít í baksýnisspegilinn, lagfæri hárið. Mér verður starsýnt. Í augum mínum skín á eitthvað sem ég hef ekki séð áður, lengi. Þess vegna kom ég einn í dag. Fyrstu tárin féllu og fjörutíu árum seinna fellur seinni skammturinn.

Fjörutíu árum seinna. Tveir legsteinar; annar til minnis um líf, hinn um dauða. Tárin frosin á andlitum þeirra beggja.

(skrifað í september 2005)

Draumar og skömm

Peter Carey skrifaði smásöguna „Amerískir draumar“ árið 1974 og birtist hún sama ár í smásagnasafninu The Fat Man in History. Í sögunni er sagt frá íbúum í áströlskum smábæ við hlíðar Nöktuhæðar. Sögumaðurinn er ungur drengur sem lýsir því sem faðir hans kallar ameríska drauma; það er, hvernig hver íbúi bæjarins lætur sig dreyma um að yfirgefa bæinn og fara til Bandaríkjanna og/eða öðlast frægð og frama. Sögumaður segir einnig frá herra Gleason, fáskiptum manni sem býr einnig við Nöktuhæð.

Herra Gleason tekur einn dag upp á því að reisa múr utan um Nöktuhæð fyrir ofan bæinn og það er ekki fyrr en nokkrum árum seinna, við andlát hans, að íbúar bæjarins fá að sjá hvað er á bak við múrana. Við andlát hans eru veggirnir rifnir niður og þá kemur í ljós ótrúlega nákvæmt líkan af bænum. Hvert hús, hvert kennileiti og hver íbúi eru til staðar í líkaninu sem fljótt öðlast mikla frægð. Bandarískir ferðamenn streyma til bæjarins og vilja taka myndir af líkaninu og fólkinu, bera saman og bera dýrðina augum. Í lok sögunnar lýsir sögumaður því hvernig vonbrigðasvipurinn á andlitum ferðamannanna afhjúpi harmleik lífsins – íbúar bæjarins hafa elst og breyst svo að þeir eru ekki lengur eins og líkanið. Amerísku draumarnir eru að engu orðnir og þess í stað ríkja núna áströlsk vonbrigði í smábænum við Nöktuhæð.

Það má segja að Peter Carey afreki einkum tvennt með frásögn sinni af bænum við Nöktuhæð. Í fyrsta lagi ber sagan sterka skírskotun til vel þekkts fyrirbæris í Ástralíu sem nefnist ‘the cultural cringe’ eða menningarskömm. Þetta kemur vel fram í lýsingum sögumanns á bænum í upphafi. Hann lýsir bænum sem fallegum bæ við fallega hæð þar sem gróðurinn blómstrar og áin rennur, en um leið leggur hann áherslu á hversu uppteknir íbúarnir eru af því að láta sig dreyma um fjarlæga staði og spennandi slóðir. Þetta bendir sterklega til að íbúarnir þjáist af þessari svokölluðu menningarskömm sem er einkennandi fyrir áströlsku þjóðina. Carey lýsti þessu sjálfur í viðtali sem svo að Ástralir hefðu „í gegnum tíðina komið [sér] í þá aðstöðu að vera háð dómum og áliti utanaðkomandi aðila: Hvað finnst þeim í London? Hvað finnst þeim í New York?“

Menningarskömmin stafar af uppruna Ástrala. Áður fyrr var var landið byggt upp af svokölluðum frumbyggjum en á síðari hluta átjándu aldar hófu Bretar að flytjast þangað í auknum mæli. Síðan þá hefur þessi unga þjóð í fornu landi lifað í hálfgerðum frændskap við Bretlandseyjar – og í kjölfarið Bandaríkin líka – sem eins konar óreyndur frændi tveggja mikilla fræðimanna. Ástralir hafa lifað í nánast sjálfskapaðri skömm þar sem þeim þykir menningarlegur arfur síns eigin lands vart standast samanburð við þann bandaríska eða þann breska. Í greininni „The Cultural Cringe“ segir A. A. Phillips að „yfir rithöfundum [Ástralíu] og öðrum listamönnum gnæfir skuggi hinna Engilsaxnesku afreka. Slíkt ástand getur vart annað en getið af sér hina einkennandi ástralska menningarskömm.“

Í smásögu Peter Carey verður þetta einkenni áströlsku þjóðarinnar að mórölskum miðpunkti gjörða herra Gleasons. Að honum látnum eru múrarnir umhverfis sköpunarverk hans felldir og þegar íbúar bæjarins sjá hvað hann hefur gert fyllast þau fyrst þakklæti og upphefð. Þeim finnst hann hafa verið að sýna þeim heiður með ítarlegu líkani sínu. Sögumaður nefnir skoðanir föður síns í garð líkansins og afhjúpar þar með viðleitni herra Gleasons til að frelsa Ástrala undan sinni eigin skömm:

Ég held að á þeirri stundu hafi allir verið í sæluvímu. Ég minnist þess ekki að hafa verið jafnuppnuminn og glaður. Þetta var ef til vill barnaleg tilfinning en þgar ég leit á föður minn og sá hlýlegt bros breiðast yfir andlit hans vissi ég að honum fór eins. Seinna sagði hann mér að hann héldi Gleason hafa byggt þetta líkan af bænum okkar fyrir þetta augnablik, svo við skynjuðum fegurð bæjarins okkar, yrðum stolt af sjálfum okkur og vöknuðum upp af amerísku draumunum sem sóttu svo á okkur. Því að hitt, sagði faðir minn, var ekki að undirlagi Gleasons og hann hefði ómögulega getað séð fyrir það sem síðar gerðist. (bls. 62)

Það sem síðar gerðist var að líkanið tók yfir líf bæjarbúa og breytti öllu varanlega. Bandarískir ferðamenn flykkjast til bæjarins við Nöktuhlíð og fara í skipulegum túrum upp á hæðina til að skoða líkanið, koma svo aftur niður í bæinn og leita uppi viðfangsefni herra Gleasons. Þau leita uppi föður sögumanns og biðja hann að krjúpa við hjól herra Dyers, rétt eins og á líkaninu, og svo koma þau til sögumanns og biðja hann að stilla sér upp við bensíndæluna eins og eftirlíkingin gerir. Vandamálið er bara það að það eru liðin fjögur ár síðan líkanið var afhjúpað, samkvæmt sögumanni, og eins og með alla unga drengi hefur hann þroskast og breyst talsvert á þeim tíma. Vonbrigðin leyna sér ekki á meðal Kananna sem rífast um það hvort þetta sé sami drengurinn og í líkaninu. Á endanum dæsir sögumaður og segir við sjálfan sig, með allt að því heyrilegan uppgjafatón í hálsinum, að „þeir kjósa heldur styttuna.“ (bls. 66)

Og hér kristallast menningarskömm Ástrala, í augum amerískra ferðamanna. Í augum ferðamannanna sjá þeir endurspeglast eigin vonbrigði. Herra Gleason hefur, með gjörðum sínum, komið íbúum bæjarins við Nöktuhæð í þá stöðu að þeir þurfa í sífellu að þola dóma og álit utanaðkomandi aðila: Hvað finnst þeim í London? Hvað finnst þeim í New York?

Í öðru lagi má segja að sagan virki einnig sem sterk hugleiðing um frægðina og eðli hennar. Frægðin er undarlegt fyrirbæri – flest dreymir okkur um að fara einn daginn fram úr björtustu vonum og ‘slá í gegn’. Sumir vilja verða forsetar, aðrir frægir listamenn eða kannski íþróttafólk, en ég þori að halda því fram að það sé vart til sú manneskja sem ekki dreymir um eitthvað stærra en það sem hversdagslegt líf býður upp á.

Það vilja allir vera frægir. En það vilja líka allir vera frægir á sínum eigin forsendum, og í því felst gráglettin kaldhæðni frægðarinnar. Ef við segjum að það sé draumur hvers manns að verða frægur á eigin forsendum getum við líka sagt að breytist þær forsendur, eða komi frægðin með öðrum hætti en fólk myndi helst kjósa, getur frægðin fljótlega snúist upp í andhverfu sína og orðið að bölvun. Hvort ætli sé meiri harmleikur, að öðlast aldrei þá frægð sem maður þráir eða að öðlast hana á röngum forsendum og þurfa að þola hana?

Í „Amerískum draumum“ sést þetta skýrt á viðhorfi íbúa til líkansins. Eins og sögumaður kemur inná í upphafi frásagnar sinnar dreymir alla íbúana svokallaða ameríska drauma, þar sem þau eru fræg eða njóta velgengni hvert á sínum eigin forsendum. En það eiga draumar þeirra sameiginlegt að þeir gerast annars staðar; bakarinn vill ekki verða frægur fyrir bakstur í bænum við Nöktuhæð, né slátrarinn, útfararstjórinn eða verslunareigandinn fyrir sínar iðnir innan bæjarins. Alla dreymir um að flýja tilveru sína og öðlast meiri spennu og velgengni annars staðar.

Það sem gerist hins vegar við afhjúpun líkans herra Gleasons er að það virkar eins og ótrúlega ítarleg ljósmynd á bæinn og íbúana við Nöktuhæð. Líkanið myndar hvert smáatriði í bænum og gerir úr því sögulega heimild sem hlýtur frægð og frama á sínum forsendum, en ekki íbúanna. Íbúarnir neyðast fyrir vikið til að sinna þeim athöfnum sem einkennir persónu hvers og eins þeirra í líkaninu. Bærinn breytist við aðkomu túristanna; efnahagurinn batnar og sumir hagnast meira en aðrir á auknu peningaflæði til bæjarins, en íbúarnir eiga það samt sameiginlegt að þurfa reglulega að skírskota til ákveðins tíma eða augnabliks í sínu eigin lífi. Til dæmis þarf faðir sögumanns ævinlega að krjúpa við reiðhjól herra Dyers; hann dreymdi eflaust um frægð eins og aðra en ekki á þessum forsendum. En í stað sinna eigin drauma upplifir hann sig hlekkjaðan við raunveruleikann: hann heillaðist eitt sinn af gírahjóli slátrarans og í kjölfarið kom sennilega girnd sem varði í takmarkaðan tíma, en þökk sé líkaninu verður hann ávallt maðurinn sem krýpur við annars manns hjól. Hann er táknmynd girndarinnar.

Hver íbúi bæjarins upplifir svipaðan hrylling. Sögumaður hefur á orði við afhjúpun líkansins að faðir sinn telji herra Gleason hafa meint vel með líkaninu en hvort sem hann meinti vel eða ekki hefur það snúið bænum á hvolf. Heiðursgjöf herra Gleasons reynist vera frægðarbölvun sem veldur því að bærinn blómstrar og dafnar á yfirborðinu en sál hans deyr um leið og íbúarnir þjást fyrir.

Vandinn við líkan Gleasons er að það, rétt eins og önnur listaverk, lýgur ekki á neinn hátt (að því sem við best vitum af frásögn sögumanns). Það er fólki eðlislægt að blekkja sig sjálft – með draumum og hlutdrægri rökhugsun getur fólk endalaust komist hjá því að líta í eigin barm og logið að sjálfu sér um sitt eigið líf svo lengi sem það lifir – en í návist líkansins gátu íbúar bæjarins ekki lengur logið að sjálfum sér. Eins og ljósmynd sem fangar eðli hlutanna í sínu rétta ljósi og birtir einungis staðreyndir málsins skapaði líkanið ekki aðeins fangelsi frægðarinnar fyrir íbúa bæjarins við Nöktuhæð, heldur skapaði það einnig andlega auðn þar sem áður ríktu háleitir draumar og bjartsýni. Líkanið svipti íbúana bandaríska draumnum og færði þeim í staðinn ástralska skömm – skömm sem einkennist af vonbrugðnu augnaráði bandarískra túrista.

(skrifað í mars 2007)

Gúglraunir

Ég hef í nokkra daga leitað að ákveðnum pakka á netinu. Um er að ræða gamalt þema sem ég notaði eitt sinn fyrir Wordpress-síðu, fyrir svona 8-9 árum síðan. Wordpress hefur náttúrulega verið uppfært mörgum sinnum síðan þá og notar, eins og netið allt, gjörólíkar vefsíður í dag með talsvert fágaðri kóðun.

Engu að síður er undarleg tilfinning að finna ekki eitthvað sem þúsundir manna notuðu eitt sinn og ætti að liggja á nokkuð auðveldum stað á netinu. Maður tekur því sem sönnu í dag að það sem þú hefur einhvern tíma sagt eða gert á netinu er og verður þar um ókomna tíð, en samt tekst mér ekki að finna þetta fjölnotaða og vinsæla efni, sama hvaða töfraleitarorð ég mata Google á.

Eflaust er þetta mér að kenna. Ég ætti að muna hvað þemað heitir, eða geta lýst því betur svo að Google geti fundið það fyrir mig. En það hefur ekki tekist, hingað til.

Þá er það bara næsti möguleiki: að skoða í gegnum tvo stútfulla kubba af afrituðum gögnum sem ég á uppí hillu. Stafræna fótsporið mitt síðasta áratuginn eða svo. Þetta liggur þar einhvers staðar, það er best að laga sér heitan bolla og hefjast handa.

Þetta hefði aldrei gerst ef við læsum ennþá bækur og handskrifuðum bréf.