Gúglraunir

Ég hef í nokkra daga leitað að ákveðnum pakka á netinu. Um er að ræða gamalt þema sem ég notaði eitt sinn fyrir Wordpress-síðu, fyrir svona 8-9 árum síðan. Wordpress hefur náttúrulega verið uppfært mörgum sinnum síðan þá og notar, eins og netið allt, gjörólíkar vefsíður í dag með talsvert fágaðri kóðun.

Engu að síður er undarleg tilfinning að finna ekki eitthvað sem þúsundir manna notuðu eitt sinn og ætti að liggja á nokkuð auðveldum stað á netinu. Maður tekur því sem sönnu í dag að það sem þú hefur einhvern tíma sagt eða gert á netinu er og verður þar um ókomna tíð, en samt tekst mér ekki að finna þetta fjölnotaða og vinsæla efni, sama hvaða töfraleitarorð ég mata Google á.

Eflaust er þetta mér að kenna. Ég ætti að muna hvað þemað heitir, eða geta lýst því betur svo að Google geti fundið það fyrir mig. En það hefur ekki tekist, hingað til.

Þá er það bara næsti möguleiki: að skoða í gegnum tvo stútfulla kubba af afrituðum gögnum sem ég á uppí hillu. Stafræna fótsporið mitt síðasta áratuginn eða svo. Þetta liggur þar einhvers staðar, það er best að laga sér heitan bolla og hefjast handa.

Þetta hefði aldrei gerst ef við læsum ennþá bækur og handskrifuðum bréf.